Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Þorrablót

Þorrablót Tálknfirðinga í gær heppnaðist ljómandi vel. Þar varð ég vitni að eftirfarandi samtali.

 

A: Mig hefur alltaf langað til að eignast hrafn og láta stoppa hann upp. 

B: C getur skotið einn fyrir þig.

A: Í alvöru?

C: Þú færð hann á mánudaginn.

A. Frábært!

C: Ekkert mál. Viltu hafa hann svartan eða hvítan? 

 

Glæsilegri reddari finnst nú varla í gjörvallri kristninni! 


Teigsskógur

Kannski er farið að slá í þessa umræðu, en ég má samt til með að koma þessu á flot.

Mikið ljómandi var ég ánægður með umhverfisráðherrann okkar nú á dögunum. Sama dag og flokksbróðir hennar stóð hólmfastur við Urriðafoss (sem var að sínu leyti athyglisvert innslag í umhverfismálin) tók hún af skarið, hjó á hnútinn og traffaði beslutninginn: vegurinn vestur skyldi færður af Hjalla- og Ódrjúgshálsum en tveir firðir þveraðir í staðinn. Vegurinn styttist talsvert, hef ekki tölurnar á hreinu, en það sem skiptir þó miklu meira máli er að leiðin ætti að verða talsvert öruggari. Ég hef heyrt af manni sem fyrir einskæra Guðs mildi stansaði í vegkantinum þegar bíll hans  fór að renna afturábak ofarlega í Ódrjúgshálsi. Í glerhálku auðvitað. Einhvern veginn komst hann samt niður, eftir veginum nota bene, og ætlaði að snúa við suður en komst þá ekki upp Hjallahálsinn. Sat sem sé fastur í Djúpadal. Það þarf svo sem ekkert að vera að því að vera staddur nolens volens í Djúpadal  en hann ætlaði bara að vera annars staðar. Hrakningasögur af þessum slóðum eru legío en ég læt þessa duga. 

Allavega, fjöldi manns hefur nú risið upp Teigsskógi til varnar og segja menn að nær hefði verið að bora gegnum hálsana. Hér sé verið að skemma stærsta samfellda birkiskóg á Vestfjörðum. Ég læt því ósvarað að sennilega má hafa vegarstæðið þannig að skógurinn spillist ekkert átakanlega, sem og að göng hefðu þýttt 20 ára eða Guð má vita hvað langa bið eftir heilsárssamgöngum á landi út fyrir Vestur- Barðastrandarsýslu: Nei, það sem mér  finnst athyglisverðast er þessi kategóría "Stærsti samfelldi birkiskógur á Vestfjörðum." Þetta eitt vinni honum þá helgi að ekki megi beina umferð nálægt honum.

Það var og. Ef viðlíka fyrirvarar verða settir á vegalagningu þá er ég hræddur um að lítið verði úr vegagerð almennt. Það var kannski eins gott að búið var að leggja veginn um Svinahraun á leiðinni austur yfir fjall, þar sem "stærsta samfellda mosabreiða á Suðvesturlandi" hefur sennilega verið eyðilögð. Eða um Skaftafellssyslur þar sem "mestu sandar á  láglendi sunnanlands" hafa verið fordjarfaðir með samgöngumannvirkjum. Ég nenni ekki að fara hringinn en það er vafalítið hægt.  En ef meiningin er að halda þessu landi í byggð verður að vera hægt að fá að fara um það. 

Ég játa að ég hef ekki farið um Teigsskóg, ekki enn. En af myndum að dæma sýndist mér umræðan vera á svolitlum villigötum því vegur liggur nú þegar eftir skóginum miðjum. Ætli hann endi ekki við einhvern sumarbústað þarna, ég veit það ekki. En hvert er þá málið?  


Höfundur

sveinn valgeirsson
sveinn valgeirsson
Sóknarprestur í Bíldudals- og Tálknafjarðarprestakalli.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband