Leita í fréttum mbl.is

Þrældómur

Í hinum forna heimi gerðist það gjarnan að menn seldu sjálfan sig og skyldulið gjarnan í þrældóm til að gera upp skuldir sem þeir réðu ekki við. Heilu þjóðirnar voru jafnvel meðhöndlaðar svona (gott ef e-r gerði ekki að því skóna að Ísrarelsmenn hafi lent í Egyptalandi á þessum forsendum, hvaða vit svo sem kanna að vera í því.) Og í barnaskap mínum hugsaði ég, þegar ég las þetta: "Furðulegt að réttur annarra til eigna hafi verið sterkari réttinum til lífs og frelsis. Eins gott að þessir tímar eru fyrir bí."

Já, einmitt! 


Catullus - tilraun til þýðingar (eða afskræming!?)

 

 

Odi et amo. Quare id facere fortasse requiris.
Nescio sed fieri sentio et excrucior.

Ég hata og elska. Hví það? / kanntu að spyrja mig um.
Hef ekki hugmynd, en samt / helvítis bömmer þett er.

 

Ég reyndi að hanga á hexametrinu en lét aðra bragfræði víkja. Svo, nú spyr ég ykkur báða sem lesið þetta blogg, sleppur þetta? 

Valete, pii lectores. 


Óhræsið - tilbrigði

 

Enn er upp til fjalla,

ískistunni fjær, 

rjúpan ráðasnjalla

ropandi að mér hlær.

 

vonandi glæðist veiðin.  

 


Vísitölur.

Ég man ennþá hvað Elín Hirst var glöð þegar hún, fyrir allmörgum árum, tilkynnti í 10 fréttum að hlutabréfavísitalan hefði farið yfir 1500 stig og var það nýtt met á sinni tíð. Síðan þá hefur mikið vatn til sjávar runnið og margar krónur skipt um hendur; mér skilst að vísitalan hafi farið yfir 8000 stig nýverið, sem væntanlega er betra en að hún sé í 1500 stigum. Þetta get ég ályktað út frá talnagildunum án þess að hafa hugmynd um verðbréfaviðskipti vegna þess að nútíminn vill tjá sig í tölum og hann leitast við að kenna mér það. Að því leyti er talna"speki"  gnóstisimans að ganga aftur í nútímanum. Það virðist eitthvað svo hentugt að sjóða staðreyndirnar niður í tölur, bæði vegna þess að talnaframsetningin sparar manni oftst nær tíma sem og að allt sýnist ábyggilegra og vísindalegra ef framstetningi er í tölum. Ég gæti ímyndað mér að enskan sé ekki endilega harðast keppinautur íslenskunnar heldur talnatalið.  Jafn fáránlega og það nú hljómar. Kannski á þetta svo eftir að heyrast í 10 fréttum síðarmeir:

"Nokkrar sviptingar urðu á Alþingi í dag; greindarvísitalan hækkaði lítillega og endaði í 6510 stigum; munaði þar mestu um gáfulega ræðu Karls V. Matthíassonar í annarri umræðu um Lög um vernd friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum."     

Samt er það svo að erfitt er að mæla það sem skiptir mestu máli. Kannski er einmitt þess vegna að þeir virðast alltaf mæta afgangi. Ætli sé samhengi þar á milli? 

Hver er hamingjustuðull yðar?

Stendur gæfuvísitala þín í 1500 stigum? eða 8000?   

Fer vísitalan fallandi á samkiptamarkaðinum? Eða er væmnisvísitalan að nálgast nýjar hæðir?


    


Framhaldsskóli á sunnanverðum Vestfjörðum.

Gott er að geta byrjað nýja bloggtíð á jafn gleðilegu efni og fréttum af nýjum framhaldsskóla á sunnanverðum Vestfjörðum.

En í gær var framhaldsskóladeild hleypt af stokkunum á Patreksfirði og verður hún rekin í samstarfi við framhaldsskólann í Grundarfirði. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni og ekki er nokkur vafi á því að skólinn verður mikilvægur þessum byggðum sem eiga nú í vök að verjast. Það fer samt  ekkert hjá því að efasemdarraddir heyrist um skólann; ég held samt að ég geti súmmerað þær raddir í eitt kvein; "þetta er ekki eins skóli og ég gekk í." 

Sem betur fer liggur mér við að segja því skólastarf hefur breyst allnokkuð síðan bara fyrir 10-15 árum. BSTK (borð stóll tafla krít) er nefnilega farið að gefa eftir og möguleikar upplýsingatækninnar vaxa með hverjum deginum. Það var mér nánast opinberun að heimsækja skólann í Grundarfirði sl. haust og sjá hvernig þar var rekinn nútímalegur og öflugur skóli sem leitaði víða fanga til menntunar.

Vissulega verður enginn óskaplegur fjöldi í nýju deildinni miðað við hvað gerist á stór-Kársnessvæðinu; hér verða um 20 nemendur; en þetta er mikill fjöldi miðað við íbúafjöldann hér. Framhaldsdeildin mun vafalítið gefa fleiri kost á að stunda framhaldsnám auk þess sem miklar vonir eru bundnar við að eitthvað slái á hið 50% brottfall nemenda í framhaldsskóla. Og tilfellið er að allnokkrir nýrra nemenda hafa einmitt reynt fyrir sér áður en orðið frá að hverfa. Það er nefnilega meira en að segja það að yfirgefa foreldrahús, leigja kannski í bílskúr eða kjallara og eiga að reka sjálfan sig auk þess að takast á við nýjan skóla. 

Alligevel. Nú er nýr kafli að hefjast í menntunarsögu Suðurfjarða og ég held að ekki væri vitlaust að leggja mikla áherslu á efnafræði, efnaverkfræði og skyldar greinar svo heimamenn verði klárir þegar olíuhreinsistöðin verður komin í Arnarfjörð. 

Gaudeamus igitur, oleum habebimus.

    

 

 


Ríkisstjórnin og kaupin á eyrinni.

Ég er ljómandi ánægður með nýju ríkistjórnina. Hefði að vísu gjarnan viljað sjá Sturlu áfram í samgöngustuði en svona gerast víst kaupin á eyrinni eins og margoft kom fram í viðtölunum í kvöld. Sem vekur auðvitað upp þá spurningu hvort ekki ætti bara að gera kaupin annars staðar. Undir galtanum eða í réttunum. En hins vegar verð ég að lýsa furðu mini á því hvernig staðið var að kynningarmálum ráðherradómanna nýju. Datt engum í hug að kannski væri nú vit að hafa einhvers konar form á því. Blaðamannafund kannski eða eitthvað slíkt. Þetta var meira í ætt við eltingaleik eða jafnvel feluleik, alla vega hjá sjálfstæðismönnum. Ekki hvarflar það að mönnum að þeir geti beðið Kristján Má af sér með því að hanga inná skrifstofu von úr viti? Kannski var þetta annars meira eins og boðhlaup. Fréttamaður réttir ráðherrra spurninguna og hann hleypur með hana einn hring um salinn og kemur svo með svarið. Mér fannst þetta allt saman frekar hallærislegt og alger óþarfi. Að vísu má segja að hlutur kvenna hefði mátt vera meiri sjálfstæðismegin, en allt að einu er þessi ríkisstjórn vel skipuð. Og ef allt er í lagi með þessa ríkisstjórn þá eiga menn að vera upplitsdjarfir og miðla því. Ekki láta eins og þeir vildu helst vera annars staðar. Ég vona bara að þetta sé fararheillafall. Sjálfur óska ég þessari ríkisstjórn allrar blessunar og segi, upplitsdjarfur, að ég  bind miklar vonir við hana. Curate ut valeatis. 


Loforðasetur.

Ég var á fundi á Patreksfirði í gær þar sem nefnd á vegum Forsætisráðuneytisins kynnti skýrslu sína um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum. Þetta var góður fundur og ég bind miklar vonir við þær hugmyndir sem þarna koma fram. Þetta eru raunhæfar hugmyndir og vel gerlegar. Ég kom því bjartsýnn og glaður út af fundinum og er á því að tími innantómra loforða til Vestfirðinga sé liðinn. Af því tilefni væri ekki úr vegi að stofna setur. Við höfum séð hvernig nánst hvert einasta byggðarlag "hér á landi á" hefur dregið fram sérstöðu sína, eða verið fyrst að grípa ákveðna hugmynd sem fleiri gætu svo sem átt hlutdeild í, og stofnað um það setur. Vesturfarasetur, Landnámssetur, Sauðfjársetur, Hafíssetur. Vestfirðingar gætu örugglega stofnað Loforðasetur, þar sem allt innantómum loforðum pólitíkusa verður safnað saman. Ég reikna ekki með að þessi skýrsla endi þar.  


Borgarnesræður formansins (í nom: forman, hvk.-s)

Ég var að horfa á fréttirnar áðan. Steingrímur Jóhann sást borða pulsu hjá Samfylkingunni en það var samt ekki merkilegast við þá frétt. Nei, það var að nú getur maður farið inní klefa og hlustað á Borgarnesræður formans Samfylkingarinnar. Og ég hugsaði með mér: Af hverju er ég aldrei þar sem aksjónin er? Stökk á einhverjum Tálknafirði og kemt ekki í klefann með ómþýðu röddinni frá Haugi. Alltaf jafn heppinn.


frétt

Langaði bara að deila því með ykkur að svifryksmengun er nú með allra minnsta móti hér á Tálknafirði. Og líkast til hverfur hún alveg þegar Tryggvi fer af nöglunum og Hermann vörubílstjóri í Hjallatúni fer til Kanarí.

Heim til Rómar?

Elskulegur collega sr. Baldur Thorlaci Portus stakk víst uppá því um daginn að við lútherskir gerðum best í því að hafa okkur heim aftur til móðurkirkjunnar rómversk-kaþólsku. Ég veit það, ekki ég er nú ósköp ánægður með að vera fluttur að heiman og langar ekkert sérstaklega heim til mömmu aftur. En þegar sr. Baldur opnaði þessa umræðu þá rifjaðist þá upp fyrir mér Tractatus eftir Melanchthon um vald og forystuhlutverk páfa, (De potestate et primatu papae) sem ég þýddi hérna um árið. Þar eru páfa og páfadæminu lítt vandaðar kveðjurnar; mest ber á því að Melanchthon ræðst að kontróláráttu þeirra tíðar rómverskra og heldur því kröftuglega fram að ekki þurfi að bera alla skapaða (og óskapaða?) hluti undir páfa. Þessi ritgerð er skrifuð af töluverðum hita, sem sést m.a. í því að  Mel.  gengur svo langt að telja páfann ganga erinda Satans, þegar hann leggur stein í götu hjálpræðis hins kristna manns, að mati Melanchthons. 

En ég velti því líka fyrir mér hvort íslenskt óstýrlæti og yfirmannaóþol muni eiga svo góða vist innan hinnar alltumlykjandi og mjög svo myndugu rómversku kirkju. Þá látum við því alveg ósvarað hvernig eigi að taka á hjónaskilnuðum, málefnum samkynhneigðra, kvenprestum, getnaðarvörnum, etc. 

Allavega, vonandi kemur þýðingin fyrir almenningssjónir innan tíðar, en eitt er víst: Melanchthon hefði seint geta talist maður hins pólitíska rétttrúnaðar á mælistiku þessarar hinnar yfirstandandi aldar. Hann  virðist ekki hafa verið mikið fyrir að halda aftur af sér og þó ekki væri nema þess vegna, þá á tractatusinn erindi nú.

Aldrei hefði hvarflað að mér að þessi ritlingur Melanchthon gæti orðið relevant í ökúmeník. Og þó, kannski er hann þrátt fyrir allt ekkert meira en kúríósa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

sveinn valgeirsson
sveinn valgeirsson
Sóknarprestur í Bíldudals- og Tálknafjarðarprestakalli.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband