Leita í fréttum mbl.is

Tölvuleikir

Miðað við það sem maður hefur séð í skólum og á heimilum þessa lands þá óttast ég að eftir 20 ár verði tvær þjóðir í þessu landi; þeir sem spila tölvuleiki (passívir neytendur) og þeir sem ekki spila tölvuleiki (gerendur). Svei mér þá ef þetta getur ekki orðið verra en brennivínsfíkn.   

Frjálslyndir

Maður er yfirleitt svolítið seinn með allt. Heyrði þessa stælingu á Bólu-Hjálmari á dögunum og sel með mjög hóflegri álagningu:

Kjörþokka sinn kusu burt með klúðri miklu

Guðjón A við gumum stríðum

Gæfuleysið féll að síðum. 

 

Enda sýndi það sig að skoðanakannanir næst á eftir hossuðuð varla Frjálslynda flokknum. En annars er mér slétt sama í hvaða víkum stjórnmálaflokkarnir róa, hitt er annað að sjaldan hefur tekist óhönduglegar með flokksstjórn og einmitt á þessari samkundu Frjálslyndra.    


Og þessi:

Age. Fac ut gaudeam! (Harrius immundus)

Frasi dagsins

Modo fac! (Nike.)

Þorrablót

Þorrablót Tálknfirðinga í gær heppnaðist ljómandi vel. Þar varð ég vitni að eftirfarandi samtali.

 

A: Mig hefur alltaf langað til að eignast hrafn og láta stoppa hann upp. 

B: C getur skotið einn fyrir þig.

A: Í alvöru?

C: Þú færð hann á mánudaginn.

A. Frábært!

C: Ekkert mál. Viltu hafa hann svartan eða hvítan? 

 

Glæsilegri reddari finnst nú varla í gjörvallri kristninni! 


Teigsskógur

Kannski er farið að slá í þessa umræðu, en ég má samt til með að koma þessu á flot.

Mikið ljómandi var ég ánægður með umhverfisráðherrann okkar nú á dögunum. Sama dag og flokksbróðir hennar stóð hólmfastur við Urriðafoss (sem var að sínu leyti athyglisvert innslag í umhverfismálin) tók hún af skarið, hjó á hnútinn og traffaði beslutninginn: vegurinn vestur skyldi færður af Hjalla- og Ódrjúgshálsum en tveir firðir þveraðir í staðinn. Vegurinn styttist talsvert, hef ekki tölurnar á hreinu, en það sem skiptir þó miklu meira máli er að leiðin ætti að verða talsvert öruggari. Ég hef heyrt af manni sem fyrir einskæra Guðs mildi stansaði í vegkantinum þegar bíll hans  fór að renna afturábak ofarlega í Ódrjúgshálsi. Í glerhálku auðvitað. Einhvern veginn komst hann samt niður, eftir veginum nota bene, og ætlaði að snúa við suður en komst þá ekki upp Hjallahálsinn. Sat sem sé fastur í Djúpadal. Það þarf svo sem ekkert að vera að því að vera staddur nolens volens í Djúpadal  en hann ætlaði bara að vera annars staðar. Hrakningasögur af þessum slóðum eru legío en ég læt þessa duga. 

Allavega, fjöldi manns hefur nú risið upp Teigsskógi til varnar og segja menn að nær hefði verið að bora gegnum hálsana. Hér sé verið að skemma stærsta samfellda birkiskóg á Vestfjörðum. Ég læt því ósvarað að sennilega má hafa vegarstæðið þannig að skógurinn spillist ekkert átakanlega, sem og að göng hefðu þýttt 20 ára eða Guð má vita hvað langa bið eftir heilsárssamgöngum á landi út fyrir Vestur- Barðastrandarsýslu: Nei, það sem mér  finnst athyglisverðast er þessi kategóría "Stærsti samfelldi birkiskógur á Vestfjörðum." Þetta eitt vinni honum þá helgi að ekki megi beina umferð nálægt honum.

Það var og. Ef viðlíka fyrirvarar verða settir á vegalagningu þá er ég hræddur um að lítið verði úr vegagerð almennt. Það var kannski eins gott að búið var að leggja veginn um Svinahraun á leiðinni austur yfir fjall, þar sem "stærsta samfellda mosabreiða á Suðvesturlandi" hefur sennilega verið eyðilögð. Eða um Skaftafellssyslur þar sem "mestu sandar á  láglendi sunnanlands" hafa verið fordjarfaðir með samgöngumannvirkjum. Ég nenni ekki að fara hringinn en það er vafalítið hægt.  En ef meiningin er að halda þessu landi í byggð verður að vera hægt að fá að fara um það. 

Ég játa að ég hef ekki farið um Teigsskóg, ekki enn. En af myndum að dæma sýndist mér umræðan vera á svolitlum villigötum því vegur liggur nú þegar eftir skóginum miðjum. Ætli hann endi ekki við einhvern sumarbústað þarna, ég veit það ekki. En hvert er þá málið?  


Áramót eller hur?

Gera upp  árið? Æ ég veit það ekki.  Jú, að vísu kominn heim frá Toronto eftir ljómandi gott ár þar, kynntist afbragðs fólki og stúderaði patristic. Allt ágætt. Svo fengum við sérdeilis góða vini í heimsókn þangað út, fór til New York að hitta minn aldalanga vin Bjarna, drakk með honum paafenge hjá Faíd frá Aserbajdsan og hafði það heilt yfir jette bra.  En ég veit ekki hvaða fréttir væru merkilegastar frá liðnu ári nema ef vera skyldi það sem hann Jakob minn blessaður Rolland mér í gær við matarborðið. Jú, nefnilega það að Napoleon hafi hreinsaði út úr skjalasafni Páfagarðs á sínum tíma og flutti það með sér til Parísar. Og þegar Napoleon rýrnaði fiskur um hrygg en páfadómi óx hann að sama skapi þá var þetta sama skjalasafn flutt til Vatíkansins. En nóta bene, þeim þraut örendið þegar þeir höfðu náð fimmtungi þess til baka. Sem sé að 80% af skjalasafni Vatikansins er í París og "rýrnar af rotnum hvert ár, rottum og músum að leik." Mér skilst að þarna séu órannsökuð skjöl í bunkavís sem gefur vísbendingar um að saga Íslands fá 1537- 1550 , a.m.k. sé nánast óskráð!! 

 


Skatan var góð

Þá er skatan étin þetta árið. Fór til Ársæls "Sæla" Egilssonar, skipstjóra og baróns í Hamraborg (ekki rugla honum saman við Ársæl "Sæla" Egilsson dusilmenni í skáldsögunni "Skipið"; sá skúraði brúna í dallinum en það hefur arnfirzka karlmennið Sæli aldrei gert)  og hans stórmyndarlegu konu Hönnu Guðmundstóttur, hertogaynju af Tungu. Skatan var ljómandi góð, Sæli verkaði hana sjálfur og hefur verið að nostra við þetta síðan á Mikjálsmessu. Sæli er vaxinn uppúr þeim barnalegu stælum að vilja hafa hana of kæsta; fátt fannst mér  apalegra en þegar karlarnir á Naustinu grettu sig framan í fréttamennina frá sjónvarpinu í gamla daga þegar þeir voru spurðir hvernig skatan væri, og svöruðu: "mætti vera kæstari." Það er enginn vandi að gera hana svo kæsta að enginn vilji éta hana; Sæli kann þá kúnst að hafa hana hæfilega og búa til svo marga styrkleikaflokka kæsingarinnar að hver geti fundið skötu við sitt hæfi.  Sæli! Skate on!!!

Svo eru það rjúpurnar á morgun.


Kærar þakkir, hlaðmenn góðir.

Alveg hreint varð ég hissa þegar ég kom inn í Mettubúð í morgun. Alls kyns ávextir, grænmeti og kryddjurtir, sem ég kann engan veginn að nefna, troðfylltu kælinn. Og ég sem hélt að svona fínerí fengist bara í Reykjavík.  Slíku vöruúrvali á maður ekki að venjast enda var hér afbrigði á ferðinni. Þessi sending var alls ekki ætluð tómhúsmönnum og slorgreifum á Tálknafirði, heldur skagfirzkum stórhöfðingjum og hrossabarónum á Sauðárkróki og byggðunum þar í kring. Þetta var vissulega gaman en hamingjan sanna ef maður þarf að standa í þessu dag eftir dag; að þurfa að velja milli svona margra tegunda. Ég yrði ærr af svona erfiðum ákvörðunum. Annað var eftirtekatvert við sendinguna sem okkur var alls ekki ætluð; nefnilega að þær tegundir ávaxta sem við erum þó vön að fá litu margfalt betur út en við eigum að venjast. Ég hélt í barnaskap mínum að allt sem út á land fer sé jafn slappt og myglað en það var ekki að sjá á þessari sendingu. Óþolandi þegar ákveðnir fastar í tilverunni verða að breytum. 


Svínin og andskotinn

Ég hafði svolítið gaman af því að sjá hvernig Össur lagði útaf sögunni um það þegar andskotinn hljóp í svínin. Sjálfsagt geta sumir fundið eitt og annað að analogíunni, eins og hvaðan illu andarnir hafi komið í svínin og hver hafi sent þá í tötrin, sem lítið höfðu unnið til saka annað en að vera svín og að vera í nærheden. Það skiptir samt litlu máli.  En eftir þessa útleggingu Össurar hefði vel mátt raula limruna hans síra Gríms Bessasonar - sem sennilega er fyrsta limra ort á íslensku. 

 

Undarlegur var andskotinn

er hann fór í svínstötrin.

Öllum saman stakk hann

ofan fyrir bakkann,

helvítis hundurinn 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

sveinn valgeirsson
sveinn valgeirsson
Sóknarprestur í Bíldudals- og Tálknafjarðarprestakalli.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband